RAUNFÆRNIMAT

 

Raunfærnimat á Íslandi

Raunfærnimat fyrir einstaklinga sem hafa stutta formlega skólagöngu

Á Íslandi hefur verið unnið að þróun raunfærnimats fyrir markhóp framhaldsfræðslunnar frá árinu 2002.  Frá upphafi hefur atvinnulífið haft beina aðkomu að þróuninni. Mennta- og menningarmálaráðuneytið fól Fræðslumiðstöð atvinnulífsins það hlutverk að halda utan um þróunarvinnu og innleiðingu raunfærnimats í samstarfi við hagsmunaaðila á vinnumarkaði fyrir einstaklinga sem ekki hafa lokið náni á hæfniþrepi 3. (stúdents- eða sveinspróf)

Árið 2010 voru samþykkt lög um framhaldsfræðslu þar sem meðal annars er að finna skilgreiningu á því hvað raunfærnimat er, hverjir eiga rétt á raunfærnimati og um rétt til einstaklingsmiðaðrar náms- og starfsráðgjafar. Í kjölfarið kom reglugerð árið 2011.

Í lögunum um framhaldsfræðslu kemur eftirfarandi fram:

  • Raunfærnimat: Skipulagt ferli þar sem með formlegum hætti er lagt hald á alhliða þekkingu og færni einstaklingsins. Matið getur byggst á skólagöngu, starfsreynslu, starfsnámi, frístundanámi, framhaldsfræðslu, félagsstörfum og lífsreynslu viðkomandi.
  • Þeir sem hafa stutta formlega skólagöngu og kjósa að leggja stund á nám sem skipulagt er á grundvelli laga þessara eða laga um framhaldsskóla eiga rétt á að einstaklingsbundin raunfærni þeirra sé metin.
  • Þeim sem hyggjast leggja stund á nám sem uppfyllir skilyrði laga þessara stendur til boða einstaklingsbundin náms- og starfsráðgjöf. Ráðherra er heimilt að setja reglur um náms- og starfsráðgjöf samkvæmt grein þessari.

Með raunfærnimati er óformlegt nám og starfsreynsla metið til jafns við formlegt nám. Þegar um er að ræða raunfærnimat á móti formlegu námi (námskrá) eru einingar sem fást með því skráðar í INNU, upplýsingakerfi skóla. Ef um er að ræða raunfærnimat þar sem metið er á móti viðmiðum atvinnulífs er gefin út skrifleg staðfesting á hæfni.

Árið 2007 hófst reglubundin fjármögnun raunfærnimatsverkefna í gegnum framlög frá Fræðslusjóði.  Fram að því voru tilraunaverkefni í gangi sem fjármögnuð voru eftir öðrum leiðum. Í fyrstu var framkvæmd einskorðum við iðngreinar, en í dag hefur raunfærnimat verið þróað fyrir flestar námskrár á framhaldsskólastigi.

Upplýsingar um raunfærnimat  fyrir einstaklinga

Samstarfsaðilar Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins sjá um að stýra einstökum raunfærnimatsverkefnum. Þegar undirbúningi raunfærnimats er lokið er verkefnið auglýst og myndaður hópur af einstaklingum sem hafa áhuga á að taka þátt. Einfaldasta leiðin fyrir einstakling til að fá upplýsingar um raunfærnimat er að hafa samband við náms- og starfsráðgjafa sem starfa á símenntunarmiðstöð í hans heimabyggð.

Þar má sækja upplýsingar um hvort möguleiki er á raunfærnimati á ákveðnu sviði og fá ráðgjöf um næstu skref.

Á vefnum Næsta skref er hægt að nálgast upplýsingar um greinar þar sem í boði er raunfærnimat.

Námskrár á framhaldsskólastigi

Mikill meirihluti þeirra sem hafa lokið raunfærnimati hafa fengið mat þar sem stuðst er við viðmið úr námskrám framhaldsskólanna. Þá er markmið raunfærnimatsins að staðfesta hæfni til styttingar á námi.  Nær allir sem koma í raunfærnimat á þessum forsendum hófu á sínum tíma nám í framhaldsskóla á einhverjum tímapunkti en luku því ekki. Árið 2014 fór fram úttekt á framhaldsfræðslukerfinu og sá Capcent um framkvæmd. Hún snéri m.a. að því að kanna árangur af raunfærnimati.

Þegar spurt var um skólagöngu að loknu raunfærnimati voru svörin eftirfarandi:

Ég fór í nám eftir raunfærnimat og hef lokið því námi 34,1 %
Ég fór í nám eftir raunfærnimat og það er enn í gangi 27,7%
Hef í hyggju að fara í nám 13,8%
Hef ekki í hyggju að fara í nám 7,6%
Ég er meðvitaðri um starfsþróun mína 16,7%

Þegar hópurinn sem hafði lokið námi eða var í námi var spurður; hvernig gekk/gengur námið? voru svörin eftirfarandi

Vel 90,0%
Hvorki né 8,9%
Illa 1,2%

Könnunina í heild má nálgast hér.

Viðmið atvinnulífs

Þó nokkur verkefni hafa verið framkvæmd þar sem raunfærnimatið miðast við skilgreindar hæfnikröfur ákveðinna starfa. Þar má nefna þjónustufulltrúa og gjaldkera í bönkum, starfsmenn í vöruhúsum, hljóðtækna og starfsfólk á rannsóknarstofum. Sú nálgun hefur gefið góða raun. Vel hefur gengið að greina hæfniviðmið fyrir störfin og meta hvort einstaklingar uppfylli þau. Í þeim hæfniviðmiðum sem sett eru upp fyrir störf er vægi persónulegra hæfniþátta eins og samskipta, frumkvæðis, getu til að starfa í hóp oft áberandi.  Þetta eru hæfniþættir sem stundum er nefndir mjúkir hæfniþættir (soft skills)  og yfirfæranleg hæfni (transferable skills).

Nokkur áhugi er til staðar bæði hjá verkalýðsfélögum og atvinnurekendum um að halda áfram á þessari braut. Hluti af því sem þarf að ræða frekar hvað það varðar snýr að  gildi niðurstaðna á vinnumarkaði, hvernig á að fylla í þekkingareyður sem koma fram, fjármögnun og hversu opnar niðurstöður eiga að vera. Í stuttu máli má segja að búið sé að prófa verkfærið, samtal hagsmunaaðila er hafið en ekki er ljóst hvert það muni leiða okkur.

Raunfærnimat á háskólastigi

Árið 2015 var komið á nefnd á vegum Háskóla Íslands til að kanna möguleika á raunfærnimati á því skólastigi. Það er ljóst að áhugi er fyrir að þróa raunfærnimat, annarsvegar til að uppfylla inntökuskilyrði í deildir og hins vegar til styttingar á námi. Hér má finna niðurstöðu vinnuhópsins.

Share This