Gott að meta – raunfærnimat í atvinnulífinu var yfirskrift ársfundar Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins sem haldin var á Grand hótel 29.nóvember s.l. Af því tilefni voru veittar viðurkenningar til fyrirmynda í námi fullorðinna, en sú viðurkenning hefur verið veitt árlega fá árinu 2007. Í ár var tveimur einstaklingum veitt viðurkenningin. Hafa þeir notið náms- og starfsráðgjafar, farið í gegnum raunfærnimat og/eða í gegnum eina eða fleiri námsleiðir eftir námskrám FA. Þau sem fengu viðurkenningu í ár voru þau Uni Þór Einarsson og Irena Halina Kolodziej. Voru þeim afhentar spjaldtölvur og blómvendir í viðurkenningarskyni.

Uni Þór Einarsson byrjaði ungur að vinna eftir að hafa flosnað snemma úr námi því honum fannst skólakerfið ekki henta sér því hann ,,passaði ekki í boxið“ eins og hann orðaði það sjálfur. Uni er bæði les- og skrifblindur sem háði honum mikið í grunnskóla og fékk hann ekki þá aðstoð sem þurfti. Unglingsárin einkenndust af nokkurri óreglu sem Uni náði síðan tökum á. Uni segir að hann hafi oft hugsað um að fara í nám en frestaði því alltaf því hann hafði enga trú á sér auk þess sem erfið skólareynsla úr grunnskóla var ekki til að ýta á hann. Eftir hvatningu frá bróður hans fór Uni  í raunfærnimat í vélvirkjun árið 2016 hjá IÐUNNI fræðslusetri sem honum gekk vel í og fór í nám í beinu framhaldi og lauk sveinsprófi í vélvirkjun nú í haust. Hann er jafnframt langt kominn með nám í rennismíði og mun ljúka því í vor. Uni stefnir á háskólanám því nú hefur hann öðlast sjálfstraust og veit að hann getur gert það sem hann ætlar sér. Góð frammistaða í raunfærnimatinu og skólanum í kjölfarið „fyllti upp í sjálfsmyndina“ og „var púslið í spilið“ eins og Uni sagði sjálfur. Raunfærnimatið ásamt náms- og starfsráðgjöf í ferlinu á stóran þátt í því að Uni finnur fyrir meira starfsöryggi,  meiri virðingu í starfi, sjálfsmynd hans er mun betri og hann er stoltur af sjálfum sér.

Irena Halina Kolodziej flutti til Íslands árið 1991 og settist hér að. Hún er fædd í Póllandi og hafði stundað ferðamálanám á fagháskólastigi áður en hún flutti hingað. Henni gekk ekki að fá nám sitt metið hér á landi og fékk ekki vinnu við hæfi. Hún hefur starfað við margvíslegt síðan hún flutti hingað en lengst af við afgreiðslustörf. Hana langaði alltaf til að ná lengra og árið 2012 fór hún í Skrifstofuskólann hjá Fræðslunetinu, símenntun á Suðurlandi. Í framhaldi af því fór hún í raunfærnimat í skrifstofugreinum og í síðan í nám á Skrifstofubraut í Menntaskólanum í Kópavogi. Hún fór þaðan í þroskaþjálfafræði við HÍ en skipti yfir í Uppeldis- og menntunarfræði við HÍ og lauk BA prófi í febrúar 2018. Samhliða því námi fékk hún inni í mastersnámi í náms- og starfsráðgjöf og stefnir á að ljúka náminu árið 2020.

Á mynd frá vinstri; Sveinn Aðalsteinsson, framkvæmdastjóri FA, Eyjólfur Sturlaugsson, framkvæmdastjóri Fræðslunetsins, Irena Halina Kolodziej, Uni Þór Einarsson og Erna G. Árnadóttir, náms- og starfsráðgjafi Iðunni fræðslusetri.

Share This